Innlent

Sala lúxusbíla eykst mikið

Íslendingar virðast ekki á þeim buxunum að láta af kaupgleðinni. Bílasala í ágúst var til að mynda helmingi meiri en í ágúst í fyrra og ásókn í svokallaða lúxusbíla hefur aukist mjög. Sala á fötum, heimilistækjum og utanlandsferðum hefur verið í hámarki það sem af er ári en bílasalan slær samt líklega flestu við. Bílasala dregst yfirleitt heldur saman í ágúst þegar fólk hefur öðrum hnöppum að hneppa. Í ár er sagan önnur og nýliðinn ágústmánuður er líklega einhver besti bílasölumánuður sem um getur. Íslendingar festu kaup á 1410 bílum í mánuðinum sem er meira en áttatíu prósentum meira en í ágústmánuði á síðasta ári þegar 779 bílar seldust. Sé svo árið sem er að líða skoðað í heild sinni er það sama uppi á teningnum. 12.903 bílar seldir í ágústlok sem er heilum fimmtíu og þrem prósentum meiri sala en fyrstu átta mánuði síðasta árs þegar Íslendingar festu kaup á 8417 bílum. Þegar hafa selst mun fleiri bílar en allt árið 2004 sem þó var mikið bílasöluár miðað við árin þar á undan. Einn anga af þessu má finna í sölu á lúxusbílum; hún hefur snaraukist og sums staðar þrefaldast á einu ári. Hjá B&L, sem selja nýjustu týpur af BMW og Range Rover, hafa þegar selst tuttugu og níu bílar sem kosta meira en níu og hálfa milljón það sem af er ári. Þetta er nærri þrisvar sinnum meira en allt árið í fyrra þegar fyrirtækið seldi tíu bíla í þessum verðflokki að sögn Heiðars J, Sveinssonar, forstöðumanns sölusviðs B&L. Spurður hvort hægt hefði verið að selja svona mikið af bifreiðum í þessum verðflokki fyrir 2-3 árum segir Heiðar að þeir hafi séð aukningu í þessum verðflokki fyrir 5-6 árum og þetta hefði því verið óhugsandi fyrir 5-10 árum. Í dag sé þetta aftur á móti orðinn vikulegur viðburður. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×