Innlent

Lofar góðri stemningu

Það heyrir til tíðinda þegar þekktar hljómsveitir koma saman á ný eftir hlé og því má það teljast stórfrétt að Skriðjöklar frá Akureyri ætli að leika á Players í Kópavogi annað kvöld. Dansleikurinn er liður í hljómleikaferðinni Hugvit og fegurð sem staðið hefur með hléum frá 1999 og er sjálfsagt ekki ofmælt að þar fari lengsta hljómleikaferð tónlistarsögunnar. "Ég lofa stemningu eins og hún gerist best enda er maður fullur orku þegar maður gerir þetta svona sjaldan," segir Ragnar sót Gunnarsson, söngvari Skriðjökla. Hann hlakkar vitaskuld til að troða upp í Kópvoginum og segir alla gömlu smellina á efnisskránni. "Svo tökum við önnur í bland. Skriðjöklar hafa jú verið kallaðir hljómsveitin sem syngur á tíu tungumálum, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi." Ragnari telst til að um fimmtán manns hafi starfað í Skriðjöklum í rúmlega tuttugu ára sögu sveitarinnar en ásamt honum hafa staðið í stafni frá upphafi þeir Jakob Jónsson gítarleikari og Jón Haukur Brynjólfsson bassaleikari. Ekki er að sjá á þeim að hartnær aldarfjórðungur sé liðinn síðan sveitinni var hleypt af stokkunum og sjálfur segir Ragnar þá félagana alltaf jafn hressa og glæsilega. Hann bætir við að gestir Players eigi von á góðu því hljómsveitin hafi æft í heilar fjórar klukkustundir fyrir ballið en það þykir óvenjulöng æfing á þeim bænum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×