Innlent

Verðbólgan rýkur upp

Verðbólga mælist nú langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, eða 4,8 prósent. Samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum frá því í fyrra má því endurskoða samninga í nóvember. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur Alþýðusambands Íslands, segir að kaupmáttur launa hafi verið að rýrna. "Á liðnum tólf mánuðum hefur þorri launþega á almennum vinnumarkaði verið að fá þriggja prósenta launhækkun en á sama tíma hefur verðbólgan verið 4,8 prósent," segir Ólafur Darri. Aðspurður hvort hann óttist það að verðbólga muni hækka, verði laun hækkuð við endurskoðun kjarasamninga, telur hann að svo þurfi ekki að vera. "Það sem skiptir máli er að við erum að reyna að tryggja að kaupmáttur launa aukist með því að semja um kaupmáttaraukningu. Við erum ekki endilega að tala um krónutölu eða prósentutölu heldur skiptir það sköpum hvernig hagstjórn verði háttað," segir hann. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að nefnd skipuð tveimur fulltrúum fá SA og tveimur frá Alþýðusambandi Íslands muni reyna að komast að samkomulagi um breytingar á kjarasamningum í ljósi verðbólguákvæðisins. Ef samkomulag næst ekki má segja samningum upp. Ákvæðið tekur gildi í nóvember. "Það er í raun og veru mjög mikilvægt verkefni að reyna að halda sem mestum stöðugleika og valda sem minnstri óvissu og titringi í kringum þessi mál. Kaupmáttur í landinu er í raun og veru of hár, sem kemur fram í þessum mikla viðskiptahalla og miklum innflutningi alls kyns neysluvarnings. Það getur ekki verið þjóðhagslega mikilvægt verkefni að auka kaupmátt. Það er ef til vill verkefni að varðveita hann eins mikið og kostur er," segir Hannes.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×