Erlent

Yfirmaður almannavarna hættur

Michael Brown, yfirmaður almannavarna í Bandaríkjunum, sagði af sér í gær. Ákvörðun Browns kemur ekki á óvart. Hann hefur sætt harðri gagnrýni fyrir lélegt skipulag hjálparstarfs á flóðasvæðunum í suðurhluta landsins og á föstudaginn var hann látinn hætta sem yfirmaður aðgerða á vettvangi. Björgunarsveitir fundu 45 lík á sjúkrahúsi í New Orleans í gær og hafa því alls fundist 506 lík á hamfarasvæðunum. Miklu fleiri er saknað. George W. Bush Bandaríkjaforseti neitaði því í gær að kynþáttamunur hefði átt nokkurn þátt í því að fólk skyldi í stórum stíl hafa verið skilið eftir innlyksa í kjölfar fellibylsins Katrínar. Ýmsir gagnrýnendur hafa haldið því fram að viðbrögðin hefðu verið skjótari og betri hefði ekki eins stór hluti strandaglópanna verið fátækir og svartir og raunin var. "Fellibylurinn fór ekki í manngreinarálit og það gerðu þeir sem unnu að björgunarstörfum ekki heldur," sagði Bush við fréttamenn í New Orleans, en þangað hélt hann í gær til að skoða ástandið þar með eigin augum. Ekið var með forsetann um kaffærð hverfi borgarinnar í herbílalest. Bush vísaði því einnig ásökunum þess efnis á bug, að þjóðvarðliðið og herinn væri of upptekinn af stríðinu í Írak til að sinna neyðarástandi í Bandaríkjunum sjálfum. "Við eigum nóg af hermönnum til að sinna hvoru tveggja," sagði hann. Óöld og stjórnleysi ríkti í New Orleans í nærri viku eftir að fellibylurinn skall á, uns "riddaraliðið mætti á svæðið" eins og einn hershöfðinginn orðaði það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×