Innlent

Björgunarstörf í sláturhúsi

Björgunarsveitin Súlur á Akureyri var kölluð út í morgun í heldur óvanalega björgunaraðgerð. Erfiðlega hefur gengið að manna sláturhús á þessu hausti. Mörg sláturhús hafa leitað eftir erlendu vinnuafli og dæmi um að fólk frá sautján þjóðlöndum starfi í einu og sama sláturhúsinu. Hjá Norðlenska voru um 70 erlendir farandverkamenn ráðnir til starfa en þegar álagið er sem mest dugar það ekki fyllilega til. Því sáu stjórnendur að leita þyrfti leiða til að létta á starfsfólki við pökkun. Reynir Eiríksson, framleiðslustjóri Norðlenska, segir sérstaklega mikið að gera núna við að verka svið sem taki þó ekki ýkja langan tíma. Því var brugðið á það ráð að spyrja björgunarsveitina á staðnum hvort hún vildi ekki afla tekna með því að aðstoða við verkunina. Hún brást skjótt við og í bítið í morgun mættu sjö félagar úr björgunarsveitinni til starfa og gengu „björgunarstörfin“ í dag bara vel að þeirra sögn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×