Innlent

Svifryk vandamál í Reykjavík

Svifryk er vandamál í Reykjavík eins og í öðrum borgum Evrópu að því er fram kom á stórborgarráðstefnu Norðurlandanna um helgina. Síðasta vetur þurfti tvisvar að senda út viðvörun til öndunarfærasjúklinga vegna svifryksmengunar í Reykjavík. Svifryk var meðal umræðuefna á Stórborgarráðstefnu Norðurlandanna sem haldin var í Helskinki um helgina. Svifrik kemur að miklu leyti frá götum borganna og hefur aukist mikið síðustu fimmtán ár með auknum umferðarþunga. Á árunum 1998 til 2000 fór magn sviryks í Reykjavík yfir umhverfismörk en hefur síðan minnkað, líklega vegna veðurfars. Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi í Reykjavík, segir þetta virðast vera vandamál í öllum stóru borgunum á Norðurlöndunum, jafnvel þótt það sé minna vandamál hér en t.d. í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Það megi þakka veðurfarinu - það sé eiginlega „sjálfhreinsibúnaður“ í því út af rokinu og rigningunni. Núna sé þetta því viðráðanlegt vandamál. Gísli Marteinn ætlar að beita sér fyrir að fyrir því að farið verði í aðgerðir til að minnka magn svifryks. Árið 2010 er stefnt að því að umhverfismörk svifryks verði lægri en þau eru nú en eins og staðan er í dag er magn svifryks í Reykjavík yfir þeim mörkum. Gísli segir að til séu lausnir sem notaðar hafi verið annars staðar á Norðurlöndunum og að Reykjavíkurborg eigi að nýta tækifærin sem til staðar séu, t.d. með því að nota rykbindandi efni eins og gert hafi verið við malarvegi hér á landi. Gísli Marteinn segir óþarft að fara strax í jafn róttækar aðgerðir og að banna notkun nagladekkja og lækka hámarkshraða. Betra sé að sjá hverju einfaldari aðgerðir skila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×