Innlent

Fagnar loforðum um fjárveitingu

Framkvæmdastjóri Geðhjálpar fagnar loforðum um fjárveitingu upp á einn og hálfan milljarð króna til að bæta úr málum geðfatlaðra. Hann telur líklegt að peningarnir dugi til að koma málefnum geðfatlaðra í viðunandi horf. Einum milljarði af söluhagnaði Símans hefur verið lofað til að fjölga búsetuúrræðum fyrir geðfatlaða. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að geðfatlaðir fái hálfan milljarð til viðbótar úr framkvæmdasjóði fatlaðra. Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir þetta stórkostlegt og lyfta geðinu á hærra plan. Í gegnum tíðina hefur mikið verið rætt um búsetuúrræði geðfatlaðra og segir Sveinn vandamálið liggja ljóst fyrir. Starfshópur skipaður fólki frá Geðhjálp, Sjálfsbjörgu og Þroskahjálp hefur unnið að greiningu á þörf geðfatlaðra fyrir félagsmálaráðuneytið. Þar kom fram að þjónustan verður að vera einstaklingsmiðuð. Fólk verður að hafa raunverulegt val varðandi búsetu, atvinnu, menntun, tómstundir og að stofna fjölskyldu. Sveinn segir mikilvægt að umönnun eða einhverskonar þjónusta fylgi búsetu þar sem þakið eitt og sér dugi ekki. Hann sagði að í dag væru mjög margir einstaklingar sem ekki eru á götunni en fá ekki neina liðveislu. Þeir eru með þak yfir höfuðið en fá ekki þá þjónustu sem á þarf að halda til að lifa bærilegu lífi. Hluti peninganna á að fara í að rétta af hlut þessa einstaklinga. Á höfuðborgarsvæðinu eru hátt í fjörtíu geðfatlaðir á götunni þótt þeim hafi farið fækkandi síðustu ár. Sveinn telur peningana sem lofað hefur verið duga til að mæta þörf geðfatlaðra þó nákvæm kostnaðaráætlun hafi ekki verið gerð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×