Innlent

Styttir leiðina til Ísafjarðar

"Við fögnum því að stjórnvöld skuli ætla að verja einum og hálfum milljarði til vegagerðar á Vestfjörðum," segir Birna Lárusdóttir forseti bæjarstjórnar í Ísafjarðarbæ um þá ráðagerð sem ríkisstjórnin kynnti í fyrradag vegna ágóðans af sölu Símans. Átta hundruð milljónum króna verður veitt til vegagerðar á Tröllatunguveg í Arnkötludal og sjö hundruð milljónum í Vestfjarðarveg sem liggur frá Bjarkarlundi til Vatnsfjarðar í Breiðarfirði. "Þetta mun þýða það að leiðin frá Hólmavík, og þá einnig frá Ísafirði, til Reykjavíkur mun styttast um 41 kílómeter," bætir Birna við. Guðmundur Guðlaugsson, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir að þar sem fjárveiting sem renna átti til Vestfjarðarvegar samkvæmt samgönguáætlun hafi verið skert á síðasta þingi sé það kærkomið að fá þessa fjárveitingu nú sem þó er ekki nægileg til að koma Vesrfjarðarveg í það horf sem vænst er. Hann segist ennfremur vonast til að þetta flýtu fyrir þeirri þróun, sem hingað til hefur verið allt of hæg, að vegir á svæðinu verði malbikaðir og liggi á jafnsléttu en ekki upp til fjalla og um firði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×