Varaði við Evrópuvæðingu háskóla

Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, varaði við of mikilli Evrópuvæðingu íslenskra háskóla og sagði miðstýringu, stöðlun og ríkisrekstur einkenna evrópska háskóla þvert á það sem þekktist í löndum eins og Kanada, Bandaríkjunum og Ástralíu þar sem háskólakerfið einkenndist af samkeppni, krafti og fjölbreytni. Þessi orð lét rektorinn falla við setningu nýs skólaárs að Bifröst. Runólfur benti á að enginn evrópskur háskóli utan Bretlands væri á meðal bestu háskóla í heimi og vararði sérstaklega við lögfestingu hins svokallaða Bolognaferlis sem hann sagði að myndi skerða fullveldi þjóðarinnar yfir háskólum sínum. Þá sagði hann verkefni forsvarsmanna háskólanna hér á landi að taka það besta úr hvoru kerfi og taka þátt í evrópsku háskólasamstarfi að því marki sem slíkt hentaði. Óþarfi og jafnvel skaðlegt væri að taka upp allar reglur og staðla sem kæmu frá Evrópu inn í hérlenda háskóla. Miða ætti íslenska háskóla við það sem besta gerist í heiminum. Aldrei hafa fleiri stundað nám við Viðskiptaháskólann að Bifröst, en skráðir nemendur þetta háskólaárið eru um 680, bæði í stað- og fjarnámi. Nýnemar í staðnámi eru 171 en alls bárust skólanum um 400 umsóknir fyrir þetta háskólaár. Nú gefst nemendum þar tækifæri á að ljúka námi allt að ári fyrr með því að nema allt árið.