Innlent

Vitar verði nýttir í ferðaþjónustu

Margir Norðmenn kjósa að verja sumarleyfisdögunum í vita og njóta norskir eyðivitar og auð vitavarðahús vaxandi vinsælda meðal ferðamanna. Formaður Íslenska vitafélagsins vill að vitar Íslands verði einnig nýttir í þágu íslenskrar strandmenningar. Á skeri einu við vesturströnd Noregs skammt fyrir utan bæinn Florö er Stabben-viti. Þarna býr enginn vitavörður lengur en ferðamönnum býðst hins vegar að leigja vitann til gistingar um lengri eða skemmri tíma. Stein Malkenes, formaður Norska vitafélagsins, segir að fólk komi þangað og gisti í fríum og haldi brúðkaup og veislur. Vitarnir séu þjóðareign og svona sé hægt að nota þá þegar vitaverðirnir séu farnir. Spurður hvort vitarnir séu vinsælir segir Malkenes að þeir séu mjög vinsælir. Í Noregi voru yfir 200 mannaðir vitar en nú eru aðeins fjórir eftir með vitavörðum. Norska ríkið hefur kosið að eiga vitana áfram, öfugt við íslenska ríkið. Sigurbjörg Árnadóttir, formaður Íslenska vitafélagsins, segir að því miður hafi íslenska ríkið selt vitajarðirnar og vitavarðarbústaði sem hefðu annars verið upplagðir til atvinnusköpunar, t.d. ferðaþjónustu. Fáir vitar séu nýttir, Galtarviti og Hornbjargsviti en annars séu aðeins fjórar vitajarðir og vitavarðarbústaðir eftir í eigu íslenska ríkisins. Krákunesviti á einum vestasta odda Noregs er einnig nýttur í þágu ferðaþjónustu. Þangað streyma rútubílar með ferðamenn sem vilja sjá öldur Atlantshafsins brjóta á klettum, þarna býðst einnig gisting en vitakaffið er þó vinsælast. Sigurbjörg telur vel unnt að nýta vita Íslands í þágu ferðaþjónustu. Það megi skipuleggja siglingar, vera með ferðaþjónustuna við ströndina og frá sjó. Ferðamönnum hafi hingað til verið stuggað upp á hálendið eins og sauðfé á vorin en ekki sé horft til strandmenningar Íslands. Hugsanlega sé þetta minnimáttarkennd hjá Íslendingum þar sem þetta sé lágstéttarmenning sem Íslendingar hafi ekki alltaf verið mjög stoltir af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×