Erlent

Funda líklega síðar í mánuðinum

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, munu að öllum líkindum funda seint í mánuðinum, að því er ísraelska dagblaðið Haaretz greinir frá. Það verður fyrsti fundur leiðtoganna eftir að ísraelskir landnemar fluttu frá öllum landnemabyggðum á Gasaströndinni og fjórum byggðum á Vesturbakkanum. Vonir manna um varanlegan frið fyrir botni Miðjarðarhafs hafa glæðst eftir brottflutninginn en enn eru fjölmörg ljón í veginum. Palestínumenn vilja til að mynda að Ísraelar yfirgefi allar landnemabyggðir á Vesturbakkanum en því hefur Sharon hafnað algjörlega hingað til. Þá eiga bæði Sharon og Abbas í valdabaráttu á heimavelli. Harðlínumenn í Ísrael eru mjög andsnúnir brottflutningi frá landnemabyggðum og hefur Benjanmin Netanyahu sagst ætla reyna að ná leiðtogasætinu í Likud-bandalaginu af Sharon vegna þessa. Abbas glímir hins vegar við hin herskáu Hamas-samtök, sem vilja gera út af við Ísraelsríki. Samtökin hyggjast bjóða fram í þingkosningum snemma á næsta ári og njóta vaxandi fylgis meðal Palestínumanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×