Erlent

Olíuleiðsla sprengd upp í N-Írak

Sprengja sprakk við stóra olíuleiðslu í norðurhluta Íraks í morgun með þeim afleiðingum að eldur kviknaði í henni. Svo virðist sem vegsprengju hafi verið komið fyrir nærri leiðslunni en hún liggur frá olíuvinnslusvæði við Krikuk til tyrknesku hafnarborgarinnar Ceyhan. Olía mun hafa lekið um tvo kílómetra frá staðnum þar sem sprengingin varð og þá tók það slökkvilið nokkrar klukkustundir að slökkva elda sem kviknuðu við sprenginguna. Ekki er ljóst hversu langan tíma það tekur að gera við olíuleiðsluna en olíuflutningi um hana hefur verið hætt tímabundið samkvæmt olíumálaráðuneyti Íraks.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×