Erlent

Gríðarleg reiði í garð stjórnvalda

Vörubifreiðar hlaðnar vistum og vopnum komu loks í tugatali til New Orleans í gærkvöld. Gríðarleg reiði ríkir í garð stjórnvalda sem þykja hafa brugðist seint og illa við. Sérfræðingar höfðu spáð nokkuð nákvæmlega fyrir um hvaða afleiðingar fellibylurinn hefði og því þykir undirbúningur neyðaraðstoðarinnar í kjölfarið hafa verið algert klúður. Ásakanir um kynþáttamismunum dynja á Bush Bandaríkjaforseta, en tveir þriðju hlutar íbúa New Orleans eru svartir. Allt að þrjá mánuði gæti tekið að dæla vatninu sem nú flæðir um götur borgarinnar burt. Um milljón manns yfirgaf borgina fyrir fellibylinn að áeggjan borgaryfirvalda en margir höfðu hreinlega ekki efni á því. Einn ellilífeyrisþegi sem beið eftir hjálp á flugvellinum sagðist hafa átt fjóra dali og tuttugu sent eftir af ellilífeyrinum enda komið langt fram í mánuðinn. Með því fé hefði hann ekki getað komist neitt. Svipaða sögu er að segja af stórum hluta þeirra íbúa sem enn hírast inni í fátækrahverfunum og bíða eftir aðstoð. Bush Bandaríkjaforseti heimsótti Alabama og Mississippi í gær og flaug yfir New Orleans. Hann viðurkenndi að neyðaraðstoð á hamfarasvæðunum hefði ekki verið nógu góð þessa fyrstu daga og lofaði bót og betrun. Mat á efnahagstjóni er komið upp í þrettán hundruð milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×