Erlent

Þjóðir heims aðstoði Bandaríkin

Kofi Annan hvatti í dag þjóðir heims til að veita Bandaríkjamönnum aðstoð í kjölfar þess að fellibylurinn Katrín reið yfir suðurströnd landsins með skelfilegum afleiðingum. Minnti Annan á að Bandaríkjamenn hefðu iðulega brugðist vel við hjálparbeiðnum í kjölfar hamfara annars staðar í heiminum, þar á með í kjölfar flóðbylgjunnar í Suðaustur-Asíu annan dag jóla í fyrra. Evrópusambandið hefur þegar ákveðið að senda hluta af olíuneyðarbirgðum sínum til Bandaríkjanna til þess að koma í veg fyrir að neyðarástand skapist í orkumálum þar. Margar þjóðir hafa hins vegar sagt að ekki hafi borist hjálparbeiðni frá Bandaríkjunum og þá hefur Bush Bandaríkjaforseti sagt að þjóðin geti séð um sig sjálf. Ástandið er hins vegar mun verra en búist hafði verið við, þúsundir eru taldar látnar, styrjaldarástand er á flóðasvæðunum og hafa yfirvöld í Bandaríkjunum sætt vaxandi gagnrýni fyrir seinagang og fyrir að gera sér ekki grein fyrir alvarleika málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×