Erlent

Leita enn horfinna ættingja

Fjöldi fólks leitar enn ættingja við ána Tígris í Írak, þar sem nærri þúsund manns lét lífið í troðningi í gær. Nú er staðfest að minnst níu hundruð og sextíu hafi farist í gær og meira en átta hundruð slasast, þar af margir lífshættulega. Ringulreið greip um sig í helgigöngu Sjíta, þegar fréttir bárust af sjálfsmorðsprengjumanni í hópnum. Fólk hljóp í allar áttir, og afleiðingarnar voru skelfilegar. Hundruð örvæntingarfullra ættingja hafa í allan dag leitað að ástvinum sínum á svæðinu. Sabih Mudisher, faðir manns sem er saknað, hefur leitað að syni sínum á öllum hugsanlegum stöðum, sjúkrahúsum, bráðmóttökum en án árangurs. Vonir hans og annarra sem kemba svæðið eru ekki góðar, því nær enginn hefur fundist á lífi í dag. Fyrstu fórnarlömb troðningsins voru í dag borin til grafar í Friðardalnum í Najaf, sem er talinn stærsti kirkjugarður í heimi. Leiðtogar Sjíta saka stuðningsmenn Saddams Hússein um að bera ábyrgð á hörmungunum, og segja þá hafa komið af stað sögusögnum um sprengjumann í hópnum, semsvo hafi í raun enginn verið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×