Innlent

Skortir reglur um barnagæslu

"Ég hef fengið mikið af hringingum frá foreldrum sem eru að spyrjast fyrir um þetta," segir Herdís L. Storgaard, verkefnastjóri barnaslysavarna hjá Lýðheilsustöð. "Ég veit að Heilbrigðiseftirlitið hefur verið að skoða þetta líka." Herdís segist hafa farið á fund Árna Magnússonar félagsmálaráðherra í fyrra og tekið málið upp. "Hann lofaði að reglugerð yrði samin, en ég hef ekkert heyrt frá honum síðan." Herdís telur þó ekki endilega að eitthvað sé að, en bendir á atriði eins og tilkynningar á slysum og hvort þau séu skráð og hvort gera eigi kröfur um það að starfsmenn skili inn sakavottorði. Hún tekur líka fram að sum fyrirtæki sem annast barnagæslu hafa að eigin frumkvæði sett sér strangar öryggiskröfur. Hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar fengust þær upplýsingar að það kannaði húsnæði þar sem barnagæsla fer fram. Engin sérstök ákvæði giltu þó nema almenn húsnæðisákvæði um hreinlæti, loftræstingu og þess háttar, en einnig væri gerð krafa um að ekkert væri þar sem hættulegt gæti talist fyrir börn. Eftirlitið hafi ekki þrýst á stjórnvöld um að setja reglugerðir. "Þetta hefur nokkrum sinnum komið til tals innan ráðuneytisins," segir Árni Magnússon félagsmálaráðherra. "Ég hef ákveðið að láta fara fram úttekt á því hvar þetta er og meta í framhaldi af því þörfina á setja sérstakar reglur." Árni telur þetta þó ekki vera stórmál. "En þetta er mál sem er ástæða til að fara yfir." Hann á frekar von á því að úttektin leiði til þess að einhverjar reglur verði settar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×