Innlent

Skjóta 7.000 máva ár hvert

"Við skjótum mest á urðunarstaðnum í Álfsnesi en þangað sækja mávarnir í leit að æti en við skjótum líka í eyjunum úti á sundunum," segir Guðmundur Friðriksson, skrifstofustjóri neyslu- og úrgangsmála hjá Reykjavíkurborg. Hann segir að alls séu skotnir um sjö þúsund mávar á hverju ári en það dugi ekki til því kvartanir berist í síauknum mæli inn á borð borgaryfirvalda. Á fundi umhverfisráðs Reykjavíkur á dögunum var lagt fram svar umhverfissviðs borgarinnar við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins þar sem fram kom að mávum hefði fjölgað verulega og til greina kæmi að grípa til aðgerða vegna þess. "Veiðifélög í borginni hafa til að mynda óskað eftir aðstoð þar sem mávurinn étur seiði sem ganga niður árnar en almennt séð þá er það þannig að við sjáum meira af mávum núna en áður. Aðgerðirnar virðast ekki duga til. Við brýnum fyrir fólki að ganga snyrtilega um borgina því mávarnir leita í rusl á götum borgarinnar," segir Guðmundur. Arnþór Þorvaldsson mávaskytta segir að skotveiðibann innan borgarmarkanna sé meginástæðan fyrir því að mávum hafi farið fjölgandi. "Áður en Kjalarnes rann inn í Reykjavík sem eitt sameinað sveitarfélag, gat ég skotið máva í uppeldisstöðvum mávsins í Kollafirði, Víðinesi og Naustanesi. Þar er mikið varp en eftir að sveitarfélögin sameinuðust þá er bannað að skjóta. Þess vegna eru mávar sofandi á hverjum ljósastaur í borginni snemma á morgnana og éta allt fæði sem færa á öndunum á Tjörninni," segir Arnþór. Hann segist sjálfur hafa skotið um fjögur þúsund máva í hverjum mánuði en fái það ekki lengur og telur það meginástæðuna fyrir ástandinu eins og það er í dag. "Síðustu sex árin hefur mávum fjölgað, einmitt vegna þessa," segir Arnþór.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×