Erlent

Ár liðið frá harmleiknum í Beslan

Tsjetsjenski uppreisnarleiðtoginn Shamil Basajev hefur lýst því yfir að rússneska leyniþjónustan beri alla ábyrgð á morðunum í barnaskólanum í Beslan í Norður-Ossetíu. Í dag er ár liðið síðan harmleikurinn hófst. Basajev birti í gær yfirlýsingu á vefsíðu sem gjarnan er notuð af tsjetsjenskum uppreisnarmönnum. Þar hélt hann því fram að í hópi gíslatökumannanna hefði verið útsendari rússnesku leyniþjónustunnar og hann hefði tryggt að hópurinn fékk að fara leiðar sinnar óáreittur. Leyniþjónustan ætlaði að leiða gíslatökumennina í gildru í höfuðborginni Vladikavkaz en þeir höfðu breytt um áætlun og ráðist á Beslan í staðinn. Aðstoðarsaksóknari Rússlands sagði í viðtali við Interfax-fréttastofuna að yfirlýsingar Basajevs þvætting og engar vísbendingar væru um að rússneska leyniþjónustan væri flækt í málið. Í svipaðan streng tók Anna Politkovskaja, rússneskur blaðamaður, sem hefur sérhæft sig í málefnum Tsjetsjeníu og er lítill vinur stjórnvalda í Kreml. Hún sagði að leyniþjónustan bæri vissulega ábyrgð þar sem henni tókst ekki að koma í veg fyrir ódæðið en ekkert mark væri takandi á samsæriskenningum á borð við þessa. 330 manns létu lífið í umsátrinu um barnaskólann í Beslan, helmingur þeirra voru börn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×