Erlent

Vandar kristilegum ekki kveðjurnar

Gerhard Schröder Þýskalandskanslari réðist harkalega á frambjóðendur Kristilega demókrataflokksins í ræðu í gær. Forskot kristilegu flokkanna er enn mjög mikið og ólíklegt þykir að jafnaðarmönnum takist að vinna það upp. Schröder flutti níutíu mínútna langa ræðu sína á flokksþingi Jafnaðarmannaflokksins í gær og hlaut dynjandi lófatak fyrir vikið. Hann ásakaði kristilegu flokkana um að ætla að koma á þjóðfélagi þar sem ekkert rúm væri fyrir samstöðu og réttlæti. "Það sem þeir vilja er kalt sundrungarsamfélag." Schröder beindi því næst spjótum sínum að Paul Kirchof, fjármálaráðherraefni kristilegu flokkanna, sem á dögunum lagði til að 25 prósenta flatur tekjuskattur yrði lagður á landsmenn. "Þessi maður hefur ekki hugmynd um kjör venjulegs fólks," þrumaði kanslarinn. Angela Merkel, kanslaraefni kristilegra demókrata ,hefur raunar sagt að hún hefði engin áform um slíkan skatt. Enda þótt kristilegu flokkarnir hafi umtalsvert forskot á jafnaðarmenn í skoðanakönnunum bindur Schröder vonir við að óákveðnir fylki sér um sinn flokk, eins og gerðist árið 2002. Stjórnmálaskýrendur telja það hins vegar ólíklegt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×