Erlent

Allt að hundrað taldir af

Talið er að hátt í hundrað manns hafi farist í hamförunum sem dundu yfir sunnanverð Bandaríkin þegar fellibylurinn Katrín gekk þar á land. Fólk hefur farið ránshendi um verslanir og önnur fyrirtæki og var útgöngubann verið sett á. Þegar eldaði af degi á hamfarasvæðunum í Louisiana og Mississippi í gærmorgun kom í ljós hvílík eyðilegging hafði átt sér stað. Tré höfðu rifnað upp með rótum, hús fokið eins og spilaborgir og raflínur höfðu slitnað. Skarð kom í flóðgarð í New Orleans og tók vatn úr Pontchartain-vatni því að flæða um alla borgina. Dælur gáfu sig undir álaginu og varð því vatnsborðið í miðborginni allt að eins metra djúpt. Í Louisiana er óttast að margir hafi týnt lífi en alls hafa þar fimm lík fórnarlamba Katrína fundist. Mesta manntjónið virðist hins vegar hafa orðið í Mississippi þar sem í það minnsta 80 manns eru sagðir hafa farist. Er búist við að tala látina muni hækka enn. "Mér finnst leitt að segja þetta en það lítur út fyrir að mjög mannskæður harmleikur hafi átt sér stað," sagði Haley Barbour, ríkisstjóri. Í bænum Biloxi í Mississippi dóu þrjátíu manns sem festust inni í íbúðarhúsi og líkti A. J. Holloway bæjarstjóri atburðinum við flóðbylgjuna miklu í Indlandshafi annan dag jóla. Talið er að tugþúsundir íbúa hamfarasvæðanna muni ekki getað snúið til síns heima fyrr en eftir marga mánuði. Að sögn Mike Brown, forstjóra almannavarnastofnunar Bandaríkjanna, verður mjög hættulegt að fara inn á flóðasvæðin eftir að vatnið hefur sjatnað vegna smithættu frá rotnandi dýrahræjum og hættu á eitrunum frá eiturefnum sem lekið hafa út í umhverfið við flóðin. Í gær hófust svo miklar gripdeildir í New Orleans og Biloxi, stundum beint fyrir framan nefið á lögreglu- og hermönnum. Fólk með fangið fullt af matvöru, fatnaði og bleyjum hélt því fram að ekki væri um þjófnað að ræða heldur einfaldlega örþrifaráð til að bjarga lífi sínu og sinna. Ránskapurinn var þó langt í frá bundinn við slíkan varning því skartgripum, hljómtækjum og áfengi var líka stolið blygðunarlaust. Veðurfræðingar segja að á næstu dögum muni Katrín fikra sig norður eftir landinu. Þótt mjög hafi dregið úr vindinum fylgir veðrinu gífurleg úrkoma og er búist við hinu versta í Ohio og Tennessee.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×