Erlent

Netanyahu hjólar í Sharon

Benjamín Netanyahu, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, hefur boðið sig fram gegn Ariel Sharon, núverandi forsætisráðherra, í formannskosningum í Likud-bandalaginu. Ólga hefur verið í flokknum vegna rýmingar landnemabyggða á Gaza-ströndinni og á dögunum yfirgaf Netanyahu ríkisstjórnina. Í gær ákvað hann hins vegar að skora Sharon á hólm eftir að sá síðarnefndi sagði hann óstöðugan og taugaveiklaðan. "Maðurinn sem stuðningsmenn Likud-bandalagsins greiddu atkvæði sitt sneri við þeim bakinu. Við verðum að reisa flokkinn við og fylgja þeirri stefnu sem Sharon hefur traðkað á," sagði Netanyahu þegar hann lýsti yfir framboði sínu. Um þessar mundir er Netanyahu er talinn hafa sterkari stöðu innan flokksins en Sharon og fari svo að forkosningar verði haldnar síðla næsta mánaðar gætu dagar Sharon í Likud-bandalaginu verið taldir. Sharon er hins vegar álitinn græða á því að kosningabaráttan dragist á langinn. Háttsettir félagar í flokknum eru allt annað en ánægðir og telja deilurnar geta orðið til þess að Likud hrökklist frá völdum. "Ég hef aldrei séð pólitísk hópsjálfsmorð framið með jafn glöðu geði," sagð Meir Shetreet, bandamaður Sharon. Kosningar í Ísrael verða haustið 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×