Erlent

Dýrasti fellibylur sögunnar

Talið er nær öruggt að tjónið vegna fellibylsins Katrínar sé það mesta sem orðið hefur af völdum óveðurs. Olíuverð var enn afar hátt í gær og skreið verðið á fatinu yfir sjötíu dali annan daginn í röð. Bandarísk tryggingafélög hafa undanfarin misseri þurft að reiða fram fúlgur fjár vegna fellibylja. Á síðasta ári gengu fjögur slík fárviðri yfir landið og námu bótakröfur um 1.500 milljörðum króna. Allt útlit er fyrir að tjónið sem Katrín olli nemi allri þeirri fjárhæð. AIR Worldwide Corp, áhættugreiningarfyrirtæki í Boston, telur að skemmdir síðustu daga í ríkjunum sem verst urðu úti í storminum kosti um 1.700 milljarða króna að bæta. RA München, stærsta endurtryggingafélag heims álítur tjónið vera á bilinu 1.000-1.500 milljarða og upphaflegar áætlanir Eqecat Inc. fyrirtækisins gerðu ráð fyrir 2.000 milljörðum. Fyrirtækið lækkaði þó matið þegar ljóst varð að skemmdirnar urðu ekki eins miklar og útlit var fyrir. Reynist þessar spár réttar er útlit fyrir að Katrín skjóti fellibylnum Andrési, sem geisaði árið 1992, ref fyrir rass en bótagreiðslur vegna hans námu 1.400 milljörðum króna. Þá var olíuverð í gær enn í hámarki vegna ofviðrisins en fatið fór upp í rúma sjötíu dali á mörkuðum í New York. Olíuverð er nú helmingi hærra en það var fyrir ári síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×