Erlent

Aldrei kynnst neinu þessu líku

Alabama er einn þeirra staða þar sem lýst hefur verið yfir neyðarástandi vegna Katrínar. Íslendingur sem þar er staddur segist aldrei hafa kynnst neinu í líkingu við rigninguna í gærkvöldi þó að hann sé staddur vel inni í landi. Elvar Lúðvík Guðjónsson sem býr í Montgomery, höfuðborg Alabama, segir að veðrið þar hafi verið orðið gott í morgun en í gær hafi verið sannkallað steypiregn og mikið rok. Mjög hvasst hafi verið þegar fellibylurinn hafi gengið yfir nærri Montgomery og rigningin svo mikil að hann hafi aldrei sé neitt þessu líkt. Hann segir að þegar viðvörunarbjöllur hafi byrjað að hringja um alla borg hafi töluverð hræðsla gripið um sig meðal íbúanna. Aðspurður hvernig honum hafi verið innanbrjósts segir Elvar að hann sé vanur ýmsu frá Íslandi en þar sem hann hafi vitað að Montogmery yrði ekki illa úti hafi hann verið nokkuð rólegur. Honum hafi þó ekki staðið á sama því það geti myndast skýstrókar út frá fellibyljum sem séu mjög hættulegir. Montgomery er vel inni í landi og Elvar segir að ástandið sé miklu verra í suðurhluta Alabama þar sem fellibylurinn skall með krafti. Þar hafi flætt yfir borgir og borgin Mobile við ströndina hafi orðið sérstaklega illa úti. Fólk hafi þurft að flýja heimili sín þar og margir hafi eflaust misst þau og þá hafi stór brú þar eyðilagst. Það taki því alla vega viku að koma ástandinu í rétt horf. Andrúmsloftið í Montgomery er skiljanlega nokkuð sérstakt í dag og segir Elvar íbúana slegna og að vart sé talað um annað en fellibylinn Katrínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×