Innlent

Blásið til sóknar gegn garnaveiki

Dýralæknar ætla að herða enn baráttuna gegn garnaveiki í sauðfé. Vonir þeirra standa til að hægt verði að leggja bólusetningu gegn veikinni af. Sigurður Sigurðarsson dýralæknir smitsjúkdóma kallar á samstöðu bænda og sveitarstjórna í málinu. "Í haust var áformað, ef skilyrði væru til, að hætta bólusetningu á Austurlandi frá Jökulsá í Öxarfirði og Melrakkasléttu að Héraðsflóa og Kárahnjúkum. Jafnvel einnig frá Reyðarfirði og Hallormsstað til Berufjarðar," segir hann. "En svör bænda á þessum svæðum við könnun okkar á síðastliðnu vori eru þó svo dræm, að óvíst er að hætt verði að bólusetja í haust. Sveitarstjórnir og bændur verða að bregðast rösklegar við, ef það á að verða." Að sögn Sigurðar er hætta á að veikin magnist upp þegar hætt er að bólusetja, sé hún enn til staðar, þótt engir eða fáir verði hennar varir meðan bólusett er. Þegar hætt er að bólusetja eykst hætta vegna smitefna sem flutt eru inn á slíkt svæði í hugsunarleysi og kæruleysi með heyi, skítugum gripaflutningabílum, landbúnaðartækjum og hestakerrum, sem sauðfé hefur verið flutt í. "Öllu slíku er hægt að afstýra, ef menn sofna ekki á verðinum," segir Sigurður. "Allir verða að finna til ábyrgðar. Það hefur tekist á tilteknum svæðum hingað til, en þar má heldur ekki sofna á verði, þótt vel hafi gengið. Ávinningur við að geta hætt bólusetningu er mikill bæði í kostnaði við hana sem ekki þarf þá lengur að greiða, minni skemmdum á afurðum og betri meðferð á skepnunum." Hann undirstrikar, að veikin hafi verið upprætt á nokkrum svæðum, þar sem hún hafi áður verið útbreidd og valdið tjóni. Ef fylgt sé tilteknum varúðarreglum megi ætla að unnt verði, án umtalsverðrar hættu, að leggja niður bólusetningu gegn veikinni á einu svæði eftir annað þar til hún hefur verið upprætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×