Innlent

Fleiri koma á þjónustusamningum

"Lokamarkmið þessara verktaka er að ná í ódýrt, erlent vinnuafl," segir Finnbjörn Hermannson formaður Sambands iðnfélaga og segir töluvert af starfsmönnum vanta í byggingariðnað hér á landi. Hins vegar telji vinnumarkaðurinn sem Ísland er á um 400 milljónir starfsmanna á Evrópska efnahagssvæðinu. Hann segir verkalýðsfélögin ekki standa í vegi þeirra sem vilja standa rétt að ráðningu starfsmanna utan EES en ekki hika við að hafna þeim sem áður hafa brotið reglurnar. Hann viðurkennir að lagaumhverfið geri verkalýðshreyfingunni erfitt fyrir í baráttunni gegn undirboðum á vinnumarkaði. "Það er í skjóli stjórnvalda sem þessi óáran er stunduð," segir Finnbjörn. Stöðugt fleiri erlendir verkamenn koma hingað til lands á þjónustusamningaákvæði vinnulöggjafarinnar og starfa hér í styttri tíma. Þessa aukningu segist Sigurður Magnússon merkja en hann starfar við átak ASÍ gegn undirboðum á vinnumarkaði. Hann segir verst að verktakafyrirtækin sem fá þessa starfsmenn hingað til lands ganga ekki alltaf úr skugga um að starfsmannaleigan sem mennirnir koma frá uppfylli þau skilyrði sem sett eru hér á landi, heldur segjast einfaldlega vera í góðri trú um það. Sigurður segir erfitt að fást við þessi mál enda gildi engin viðurlög sé farið á svig við þetta sérákvæði í lögunum, þau mál sem komið hafa inn á borð Alþýðusambandsins séu þó í ákveðnum farvegi. Hann vonast til þess að Alþingi taki á þessum málum þegar það kemur saman í haust. Árni Ingi Stefánsson starfsmannastjóri Íslenskra aðalverktaka segir ástandið á vinnumarkaði og hægagangur í umsókn atvinnuleyfa ýta mönnum út í að leita til erlenda starfsmannaleiga þegar útvega þarf vinnuafl með stuttum fyrirvara. Hann áréttar þó að hjá ÍAV sé gengið úr skugga um að starfsmannaleigur fari að íslenskum lögum og reglum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×