Erlent

Annar bruninn á fimm dögum

Sjö létust og þrettán slösuðust þegar mikill eldur kviknaði í íbúðarhúsi í París í Frakklandi í nótt. Þetta er í annað sinn á aðeins fimm dögum sem eldur kemur upp í íbúðarhúsi afrískra innflytjenda í borginni. Nær allir íbúar hússins voru afrískir innflytjendur, rétt eins og í íbúðarblokkinni sem kviknaði í á föstudaginn, þar sem sautján manns létust. Fjórir af þeim sjö sem fórust í nótt voru börn og eitt þeirra lést eftir að hafa kastað sér út um glugga í örvæntingu sinni þegar ekkert annað var til ráða. Þrettán slösuðust og þar af eru tveir enn í lífshættu. Húsið, sem er gamalt var mjög illa á sig komið og eldurinn breiddist hratt út. Það tók 130 slökkviliðsmenn vel á aðra klukkustund að ráða niðurlögum eldsins. Eldsvoðarnir tveir undanfarna fimm daga vekja enn á ný áleitnar spurningar um aðbúnað fátækra innflytjenda í París. Hýbýli þeirra eru í mörgum tilvikum vægast sagt bágborinn og ekki tilviljun að þrír stærstu eldsvoðar ársins í París hafi allir orðið í húsum afrískra innflytjenda. Upptök eldsins í nótt eru ókunn en brunamálayfirvöld í París vissu af því að mikil hætta væri á eldi í íbúðinni. Borgarstjórinn í París hefur farið fram á að húsnæðismál inntlytjenda í borginni verði tekin til algerrar endurskoðunar. Mikillar reiði gætir í hópi innflytjendanna. Afrískir innflytjendur gengu um götur og mótmæltu í kjölfar brunans á föstudaginn og búast má við enn frekari mótmælum eftir brunann í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×