Innlent

Segja ásakanir SI ekki réttar

Forsvarsmenn Didrix spa skólans segja ásakanir Samtaka iðnaðarins um að skólinn reyni að villa um fyrir nemendum sínum ekki réttar og að ekkert fé hafi verið svikið út úr nemendunum, þeir hafi tekið upplýsta ákvörðun um að innrita sig í skólann og greiða uppsett skólagjöld. Í tilkynningu sem Samtök iðnaðarins sendu frá sér í gær er varað við auglýsingum frá Didrix spa skólanum sem býður nám í snyrtifræði og hárgreiðslu. Þar segir að auglýsingarnar gefi til kynna að um sé að ræða fullgilt nám í viðkomandi iðngreinum en það sé rangt. Nám við skólann veiti engin starfsréttindi, skólinn sé ekki viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu og starfræksla hans brjóti að líkindum í bága við lög. Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir málið eiga sér langa forsögu þar sem sömu aðilar hafi komið að rekstri Snyrtiskólans sem var innsiglaður og sviptur viðurkenningu af hálfu menntamálaráðuneytisins fyrir tveimur og hálfu ári. Menntamálaráðuneytið greiddi nemendum þá milljónir króna í bætur. Kristrún segir öllum frjálst að halda námskeið en það megi ekki blekkja nemendur til að halda að þeir fái einhver réttindi út úr því þegar svo sé ekki. Hún segir að hingað til hafi verið mun meiri lausatök á iðnnámi en akademísku námi - viðbrögðin yrðu sjálfsagt miklu sterkari ef einhver skóli færi að bjóða upp á nám í lögfræði, hagfræði eða líffræði án þess að hafa til þess tilskilin leyfi frá menntamálaráðuneytinu. Taka verði málefni iðnnámsins fastari tökum. Í yfirlýsingu sem lögmaður Didrix spa skólans sendi til fjölmiðla nú rétt fyrir fréttir segir að því sé hvergi haldið fram að námið sé samþykkt af menntamálaráðuneytinu. Þar er líka gerð athugasemd við það að Samtök iðnaðarins hafi ekki kannað hvaða nám væri á boðstólum í skólanum og fullyrðingu um mögulegt ólögmæti sé slegið fram að órannsökuðu máli. Nemendurnir hafi allir sem einn tekið upplýsta ákvörðun um að innrita sig í skólann og greiða uppsett skólagjöld. Ekki náðist í Hönnu Kristínu Didriksen, sem rekur skólann, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×