Tugir látnir og gríðarlegt eignatjón af völdum fellibylsins

Meira en fimmtíu manns létust þegar fellibylurinn Katrín skall á suðurströnd Bandaríkjanna í gær. Eyðileggingin er gríðarleg og fjárhagslegt tjón vegna fellybylsins er talið nema vel á annað þúsund milljarða íslenskra króna. Flestir þeirra sem staðfest er að hafi farist voru búsettir í einni og sömu strandsýslunni í Missisippi. Vitað er að minnst fimmtíu hafi týnt þar lífi, en óstaðfestar fregnir herma að ekki færri en áttatíu hafi fallið. Enn hefur ekki tekist að komast að nokkrum íbúðarhverfum sökum vatnselgs og óttast er að tala látinna muni hækka þegar björgunarsveitarmenn hafa komist á öll svæðin sem urðu fyrir Katrínu. Enginn lést í New Orleans enda hafði gríðarlegur viðbúnaður átt sér stað þar og allir varaðir við í tæka tíð auk þess sem Katrín sveigði fram hjá borginni á síðustu stundu. Meira en milljón manns yfirgáfu borgina áður en Katrín kom og þeir sem urðu eftir flúðu flestir inn í Superdome-íþróttahöllina. Margir urðu þó að flýja upp á þak og björgunarsveitarmenn björguðu mörg hundruð manns af húsþökum víða um borgina í gær. Hlutar New Orleans eru enn á kafi og eyðileggingin er gríðarleg. Rafmagnslínur hafa eyðilagst, stór pálmatré liggja á víð og dreif og bílar fljóta eins og hráviði um alla borg. Fjölmargar byggingar eru gjörónýtar og götur sem ekki eru á floti eru þaktar glerbrotum og öðru rusli. Ljóst er að hreinsunarstarf mun taka fleiri vikur og það mun taka marga mánuði að koma borginni almennilega af stað á nýjan leik eftir yfirreið Katrínar. Þrátt fyrir það er ekki laust við að ákveðins léttis gæti í borginni enda var búist við enn meiri eyðileggingu, sem svo sannarlega hefði orðið raunin ef Katrín hefði ekki sveigt framhjá New Orleans á síðustu stundu, enda stendur borgin að miklu leyti undir sjávarmáli. Meira en milljón manns eru án rafmagns um gjörvalla suðurströnd Bandaríkjanna og að sögn yfirvalda gætu liðið allt að tveir mánuðir þar til rafmagn kemst á aftur. Þá er víðast hvar vatnslaust og útvarpssendingar nást hvergi. Í Missisippi, Alabama og Louisiana hafa líka orðið víðtækar skemmdir af völdum Katrínar. Þar liggja samgöngur að miklu leyti niðri og hættan af völdum snarpra vindhviða er ekki enn liðin að fullu hjá. Í morgun var lýst yfir neyðarástandi á allri suðurströnd Bandaríkjanna. Fellibylurinn er einhver sá öflugasti sem farið hefur yfir Bandaríkin og talið er að fjárhagslegt tjón af völdum hamfaranna undanfarinn sólarhring nemi á milli fimmtán hundruð og tvö þúsund milljörðum íslenskra króna.