Innlent

Vonast eftir frelsi á hverri stund

Búast má við að Rick Perry, ríkisstjóri Texas, afgreiði tillögur löggjafarþings Texas um lausn Arons Pálma Ágústssonar úr fangelsi í Texas í þessari viku. Að sögn Einars S. Einarssonar, talsmanns RJF-hópsins sem berst fyrir frelsi Arons Pálma, má jafnvel búast við ákvörðun í dag og segir hann að stóra stundin geti senn verið að renna upp. "Við erum að vonast eftir því en maður veit þó aldrei hvernig það verður," segir Einar. Hann segir að Aron eigi von á heimsókn náskyldra ættmenna í vikunni, stundi nám og hafi það gott. Ef af lausn hans verður, muni Einar ásamt öðrum að öllum líkindum halda utan til Bandaríkjanna. "Við gerum ráð fyrir því að hann muni fljúga í gegnum Orlando en Grandi hefur ákveðið að kosta heimför hans. Það er þó þannig að það er óljóst hvernig þetta verður og meðal annars út af þeim skilyrðum sem yfirvöld ytra geta sett. Það þarf þá allt að fara í gegnum sendiráð Íslands í Washington," segir Einar. Hann segir að Aron Pálmi muni flytja til móðursystur sinnar hér á landi ef af heimkomu hans verður sem hafi ávallt verið tilbúin að taka á móti honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×