Erlent

Hækkar yfirborð sjávar

"Það sem gerir þennan fellibyl svo frábrugðinn öðrum er kannski fyrst og fremst staðurinn þar sem hann ber að," segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. ÓIi Þór segir að fellibylurinn þrýsti sjónum niður þar sem hann fer yfir með þeim afleiðingum af sjávarborðið hækkar umhverfis fellibylinn. "Þetta er ekki ólíkt því ef þú stingur hendinni í vatnsfötu, þá hækkar yfirborð vatnsins," segir hann. "Þetta er afar óheppilegt á þessu svæði," segir Óli Þór, þar sem New Orleans er að mestu undir sjávarmáli og umkringd varnargörðum sem ekki halda ef sjávarmál hækkar um fjóra metra líkt og gerðist í gær. Óli Þór segir að þó fellibylurinn hafi verið af þriðju gráðu styrkleikamælingar þegar hann kom að landi en ekki fjórðu gráðu eins og þegar hann var á hafi úti sé um gífurlegt afl að ræða. "Fellibylurinn hefur farið á um það bil 55 metra á sekúndu þannig að þetta eru gríðarleg öfl," segir Óli Þór. Hann segir ennfremur að Katrín verði orðin að stormviðri í dag enda dragi verulega úr fellibyljum þegar þeir komi á land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×