Erlent

Dregur úr krafti Katrínar

Hlutar New Orleans eru á kafi í vatni eftir að fellibylurinn Katrín gekk þar yfir í dag. Hún brunar nú sem leið liggur í átt að Austurströndinni og er orðin fellibylur af stærðargráðu tvö. Í morgun þegar Katrín brunaði í átt að landi var hún af stærðargráðu fimm, svo stór og kröftug að aðeins fimm dæmi eru um fellibylji með sambærilegan kraft. Yfirvöld skipuðu síðustu íbúunum á hættusvæðunum að koma sér í burtu. Harry Lee, lögreglustjóri í Jefferson-sýslu í Louisiana, sagði að fólki bæri skylda gagnvart sjálfu sér og fjölskyldum þess að fara. Um klukkan ellefu náði Katrín landi en hafði þá misst nokkurn kraft, var af stærðargráðu fjögur en samt ógnarsterk. Vindhraðinn var um 67 metrar á sekúndu. Lengi vel stefndi hún á New Orleans og höfðu flestir borgarbúar yfirgefið heimili sín. Á síðustu stundu sveigði Katrín hins vegar til austurs og því fór vesturhluti hennar, kraftminnsti hlutinn, yfir New Orleans. Fenjabyggðir í grennd urði illa úti en borgin slapp þar til stormaldan sem fylgdi í kjölfarið kom. Hún varð ekki átta metrar eins og óttast varð heldur rúmir fjórir sem er þó töluvert. New Orleans er umlukt vatni og varnargarðarnir gáfu sig að því er virðist. Mikil hætta ógnar borginni: vatnsborðið hækkar, varnargarðar gefa sig og vatnið flæðir yfir borgina, sem er tveimur metrum undir sjávarmáli. Franska hverfið, næst ánni Missisippi, er því í hættu og við þetta bætist að yfirvöld óttast að eiturefni frá verksmiðjum og skólp blandist í flóðavatnið. Síðdegis sagði borgarstjóri New Orleans að tveggja metra hátt vatn væri víða í borginni og að vatnsdælur hefðu gefið sig á lykilstöðum. Sérfræðingar telja að milljónir manna gætu misst heimili sín vegna þessa. Þakið á íþróttaleikvangnum Superdome, þar sem nærri þrjátíu þúsund manns höfðu leitað skjóls, gaf sig og þurfti því að flytja fólk til. Síðdegis dró enn frekar úr mætti Katrínar og var hún þá orðinn fellibylur af stærðargráðu þrjú. Hún fer nú sem leið liggur yfir ríkin Alabama og Missisippi. Í Mobile í Alabama er rafmagnslaust og víða eru flóð og í Gulfport í Mississippi er sömu sögu að segja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×