Innlent

Vara við snyrtifræðiskóla

Samtök iðnaðarins vara námsfólk og foreldra við auglýsingum um Didrix spa skóla í snyrtifræði og hárgreiðslu. Í tilkynningu frá samtökunum segir að nám við skólann veiti engin starfsréttindi, skólinn sé ekki viðurkenndur af menntamálaráðuneytinu og starfræksla hans brjóti að líkindum í bága við lög. Í auglýsingum, sem birst hafa í dagblöðum undanfarna daga býður skólinn tíu mánaða nám í hárgreiðslu og snyrtifræði. Auglýsingarnar gefa til kynna að um sé að ræða fullgilt nám í viðkomandi iðngreinum en það er rangt. Samtök iðnaðarins segja að þeim sé kunnugt um að ungt fólk hafi greitt meira en hálfa milljón króna í fyrirframgreiðslu til skólans í þeirri trú að um iðnnám sé að ræða. Snyrtiskóli Íslands, sem rekinn var í sama húsnæði að Faxafeni 12 í Reykjavík og sömu aðilar ráku, var innsiglaður af tollstjóra 30. janúar 2003 og í kjölfarið sviptur viðurkenningu af hálfu menntamálaráðuneytisins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×