Erlent

Rafmagnsleysi víða í New Orleans

Áhrifa fellibylsins Katrínar er nú farið að gæta óþyrmilega í New Orleans. Tveggja metra djúpt vatn flæðir nú um hluta borgarinnar, stór hluti er rafmagnslaus og þakplötur og allt lauslegt fýkur á ofsahraða um göturnar. Um 26 þúsund manns sem vildu ekki eða gátu ekki yfirgefið borgina söfnuðust saman á íþróttaleikvanginum Superdome í New Orleans, en hluti þaksins fauk af og regnvatn fossaði inn. Ríkisstjóri Louisiana sagði á blaðamannafundi að fólkið hefði verið fært til og það væri ekki í hættu. Erlendir fjölmiðlar segja regnið streyma niður veggi skýjakljúfanna í borginni eins og fossa. Katrín hefur nú verið færð niður um einn styrkleikaflokk, og er orðin þriðja stigs fellibylur, en fimm er hæsta stig. Hún hefur þegar farið yfir Flórída þar sem níu manns fórust í ofsaveðrinu sem fylgdi henni, hún er nú í Louisiana en neyðarástandi hefur einnig verið lýst yfir í Alabama og Mississippi þar sem hún mun einnig fara yfir í dag og á morgun. Tryggingafélög búast við allt að sextán hundruð milljarða króna tjóni, sem myndi gera Katrínu að dýrasta fellibyl í sögu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×