Innlent

Jafnrétti ríkir hvergi

"Launajafnrétti og jöfn tækifæri á vinnumarkaði er enn fjarlægur draumur fyrir konur um allan heim," sagði Cherie Booth lögmaður sem hélt erindi á ráðstefnu kvenkyns menningarmálaráðherra víðs vegar úr heiminum sem haldin var í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands. Cherie Booth benti á að konur í Bretlandi fái að meðaltali enn þá aðeins 81 prósent af launum karla og að laun kvenna á Íslandi séu 14 prósentum lægri en karla. "Milljónir kvenna þjást vegna ofbeldis og misnotkunar. Í Bretlandi er talið að fjórða hver kona sé fórnarlamb ofbeldis. Á Íslandi sækja hundrað konur árlega um að dvelja tímabundið í Kvennaathvarfinu," sagði Booth. "Neyðarmóttaka vegna nauðgana tók á móti 496 einstaklingum árið 2003 [...] sem var aukning um 13 prósent á milli ára annað árið í röð." "Af þessum tölulegu upplýsingum, sem eru aðeins örfáar af óendanlega löngum lista, er ljóst að enn er langt í land í heiminum svo jafnrétti ríki milli kynjanna. Bilið milli kynjanna er misstórt eftir löndum, en ljóst er að mynstrið er greinilegt og alls staðar hallar á konur og konur um heim allan vita það," sagði Booth. "Baráttan fyrir réttindum kvenna er jafnframt baráttan fyrir mannréttindum," sagði Booth. Hún benti á að á mannréttindaráðstefnunni í Vín, sem haldin var árið 1993 og 171 þjóð tók þátt í, var samþykkt að mannréttindi væru fyrir alla og að þjóðir heimsins bæru skyldu til að sjá til þess að þau verði tryggð. "Samt sem áður er enn fjöldi kvenna í heiminum sem neitað er um grundvallarmannréttindi sín og meinað að kjósa eða taka þátt í opinberu lífi," sagði hún. Booth fjallaði um niðurstöður könnunar sem Alþjóðaefnahagsráðið, World Economic Forum, gerði á stöðu kvenna í 58 löndum í heiminum. Samkvæmt henni er ekki til land í heiminum þar sem fullkomið jafnrétti ríkir milli kynjanna. Svíþjóð var landið þar sem bilið milli kynjanna var minnst, en Ísland var í þriðja sæti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×