Erlent

Katrín þriðja stigs fellibylur

Miðja fellibylsins Katrínar er nú aðeins um þrjátíu kílómetra austsuðaustur af New Orleans, en áhrifa hans er þegar farið að gæta óþyrmilega í borginni. Vindurinn sem fylgir bylnum finnst í allt að tvö hundruð kílómetra fjarlægð frá miðju hans, en vindhraðinn næst miðjunni er um 200 kílómetrar á klukkustund. Um 26 þúsund manns söfnuðust saman á íþróttaleikvanginum Superdome í New Orleans, en hluti þaksins fauk af og regnvatn fossaði inn. Ríkisstjóri Louisiana sagði á blaðamannafundi að fólkið hefði verið fært til og það væri ekki í hættu. Klukkan þrjú var Katrín færð niður um einn styrkleikaflokk og er nú orðin þriðja stigs fellibylur, en fimm er hæsta stig. Að minnsta kosti milljón manns yfirgaf heimili sín í New Orleans og nágrenni og líkist borgin nú mest draugaborg þar sem ekki er köttur á kreiki, að sögn erlendra fjölmiðla sem þar eiga fulltrúa. Ray Nagin, borgarstjóri New Orleans, sagði nú síðdegis að vatn flæddi um göturnar og að þegar væri farið að flæða yfir varnargarðana í kringum borgina sem liggur mjög lágt. Rafmagn er farið af stórum hluta borgarinnar og þakplötur og glerbrot úr brotnum rúðum fjúka á ofsahraða um göturnar. Tryggingafélög búast við allt að sextán hundruð milljarða króna tjóni, sem myndi gera Katrínu að dýrasta fellibyl í sögu Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×