Erlent

Í mál vegna illrar meðferðar

Tíu ára gamall íranskur drengur hefur höfðað mál á hendur áströlskum stjórnvöldum fyrir að skaða geðheilsu hans með því að láta hann dúsa í flóttamannabúðum við illan kost í fimm ár. Shayan Badraie var í fjölmennum hópi íranskra flóttamanna sem náðu ströndum Ástralíu árið 2000 en hann hefur síðan verið í afgirtum flóttamannabúðum fjarri mannabyggðum. Nú er svo komið, að sögn foreldra hans, að hann situr þögull í marga daga og neitar að nærast og hefur hann m.a. mörgum sinnum verið lagður inn á sjúkrahús af þeim sökum. Shayan er í hópi 4000 barna sem dvalið hafa í flóttamannabúðum í Ástralíu og talið er að mál hans sé aðeins hið fyrsta af mörgum. Að sögn lögmanna foreldra drengsins hefur hann horft upp á óeirðir sem brotnar hafa verið á bak aftur með táragasi og brunaslöngum, séð fólk reyna að svipta sig lífi og orðið vitni af fjölmörgum sem farið hafa í hungurverkfall til þess að mótmæla meðferðinni í flóttamannabúðunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×