Erlent

Óttast að missa húsið sitt

Linda Garðarsdóttir, sem búið hefur í New Orleans í 12 ár, óttast að hún hafi þegar misst heimili sitt vegna fellibylsins Katrínar. Hún segir veðurhaminn svo mikinn að ekki sé hægt að gera sér grein fyrir afleiðingunum. Linda Garðarsdóttir hefur starfað í tengslum við kvikmyndir í New Orleans í Louisiana í tólf ár. Hún segir að gríðarlega mikil óvissa og ótti hafi ríkt í borginni vegna fellibylsins Katrínar sem hefur nú náð ströndum Louisiana, en Linda var meðal um einnar og hálfrar milljónar manna sem var skipað að yfirgefa heimili sitt vegna ástandsins. Eftir að viðvaranir tóku að berast ákvað að hún að fara til vinkonu sinnar sem býr í borginni Monroe í Louisiana, sem er í um 5 klukkustunda fjarlægð frá New Orleans. Linda segist hafa yfirgefið borgina um miðja nótt en þá hafi veðrið verið í lagi. Aðspurð við hverju menn búist í borginni segir Linda að hún óttist að hún missi heimili sitt í hamförunum, en hún búi rétt hjá hinu fræga franska hverfi. Spurð hvernig fólki í borginni hafi liðið segist Linda þekkja fólk sem hafi neitað að yfirgefa heimili sitt en flestir hafi hlýtt fyrirmælum yfirvalda. Fólk hafi verið tregt til í fyrstu en smám saman áttað sig á að það þyrfti að fara. Aðspurð hvernig gengið hafi að komast út úr borginni segir Linda það hafa verið lítið mál þar sem hún hafi farið um miðja nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×