Innlent

Verðlaunahafarnir vinna saman

Þau undur og stórmerki urðu á Íslandsmótinu í kranastjórnun á föstudag að þeir þrír sem unnu til verðlauna vinna allir hjá sama fyrirtækinu. Heitir það Feðgar ehf og sinnir alhliða byggingaverktöku. Ingi Björnsson hafnaði í fyrsta sæti en það voru faðir hans og afi sem stofnuðu fyrirtækið. Er Ingi smiður að mennt og þriðji smiðurinn í beinan karllegg í fjölskyldunni. Ingi er sonur Björns Bjarnasonar sem aftur er sonur Bjarna Björnssonar. "Þetta var mjög gaman og ég er ánægður með sigurinn," sagði Ingi þegar Fréttablaðið náði af honum tali í gær. Hann hefur gaman af að stjórna krana og segir starfið ekki einmanalegt eins og sumir kunna að halda. "Það er liðin tíð að menn fari upp í kranana, nema kannski þá allra stærstu," segir hann. "Maður er bara niðri með strákunum og stjórnar með fjarstýringu." Feðgar hafa yfir fimm krönum að ráða, eiga þrjá og leigja tvo. Í flotanum er meðal annars Liebherr 42 K1 krani en á slíkum verður keppt á Evrópumeistaramótinu í kranastjórnun sem fram fer í Þýskalandi í haust. Ingi Íslandsmeistari verður vitaskuld okkar fulltrúi þar og sú keppni leggst vel í hann. "Ég hef komið til bæjarins þar sem mótið verður og þekki því aðstæður. Svo erum við með 42 K1 krana þannig að ég get æft mig á honum." Ómar Theodórsson, samstarfsmaður Inga hjá Feðgum, varð annar og vakti árangur hans talsverða athygli þar sem Ómar hefur aðeins sinnt kranastjórnun í fimm mánuði. Í þriðja sæti hafnaði svo Bjarni Bjarnason en hann er einmitt föðurbóðir Inga Íslandsmeistara. Yfir 40 keppendur tóku þátt í þessu fyrsta Íslandsmóti í kranastjórnun, meðal annars einn frá Akureyri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×