Innlent

Taka verður á launamálum

Ekki er hægt að útdeila plássum sem losnað hafa nýlega á leikskólanum Nóaborg fyrr en tekist hefur að ráða fólk í þrjú stöðugildi. Borgarstjóri telur að taka verði á launamálum í kjarasamningum en segir ástandið ekki eiga að seinka loforðum um gjaldfrjálsan leikskóla. Á sama tíma og verið er tala um að leikskólar í Reykjavík verði gjaldfrjálsir er ekki hægt að manna leikskólana og benda leikskólastjórar á að lág laun og lítil sem engin möguleiki á yfirvinnu spili þar stóran þátt. Foreldrar barna á Klettaborg í Grafarvogi þurfa að vera með börn sín heima tvo daga næstu tvær vikurnar. Á Nóaborg þarf að loka fyrr á daginn vegna manneklu. Anna Margrét Ólafsdóttir, leikskólastjóri á Nóaborg, segir að sig vanti starfsfólk í þrjú stöðugildi og þurfti að boða foreldrafund í gærmorgun þar sem hún lét foreldra vita að loka þurfi leikskólanum klukkan hálffimm í stað hálfsex áður. Anna Margrét segir foreldra hafa sýnt starfsfólki skilning og samúð. Að loka fyrr nægir ef ekkert kemur upp á. Verði hins vegar forfoll hjá starfsfólki gæti þurft að senda börn heim. Þá er ekki hægt að taka við börnum í pláss sem losnað hafa nýlega. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri telur að rætast muni úr starfsmannamálum á leikskólunum innan tíðar og bendir á að víða gangi illa að ráða fólk. En telur hún að þetta muni seinka loforðum um gjaldfrjálsan leikskóla en nú þegar þarf ekki að greiða fyrir leikskólagöngu fimm ára barna. Hún segir að gjaldfrjáls leikskóli muni koma í áföngum og er nú þegar kominn. Hún sagði gjaldfrjálsan leikskóla ekkert hafa með mannahald að gera. Aðspurð að því hvort að hún telji ekki æskilegra að nota leikskólagjöldin til þess að geiða starfsfólkinu hærri laun segir hún að borgaryfirvöld hljóti að skoða viðkomandi kjarasamninga og þá launamál á leikskólunum og annars staðar. Hún minnti jafnframt á það að mikið átak hafi verið gert í launamálum leikskólakennara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×