Innlent

Hlupu frá slysstað

Klukkan 07:05 barst lögreglu tilkynning frá vegfaranda að bifreið hefði farið útaf Ólafsfjarðarvegi skammt norðan við bæinn Hvamm og hefðu 2 menn verið í bifreiðinni.  Í tilkynningunni kom einnig fram að menn þessir væru nú á gangi til norðurs eftir Ólafsfjarðarvegi.  Er lögregla kom á vettvang voru menn þessir hvergi sjáanlegir en upplýsingar bárust lögreglu að sést hefði til ferða þeirra við útihús á bæ í nágrenninu og var ljóst að piltar þessir ætluðu ekki að lenda klóm lögreglunnar í þetta skiptið. Leitaði lögreglan mannanna í dágóða stund á því svæði sem talið var að þeir héldu sig en án árangurs.  Var því skipulagðri leit hætt en vakt höfð áfram á svæðinu sem skilaði því að laust fyrir hádegi sást til ferða mannanna á Ólafsfjarðarvegi skammt frá þeim stað er óhappið var og voru þeir handteknir, kaldir og blautir eftir að hafa haldið kyrru fyrir í fjallshlíðinni í um 5 klukkustundir. Voru þeir færðir á lögreglustöðina á Akureyri þar sem frekari rannsókn málsins fór fram. Fram kom í máli þeirra að þar sem þeir hafi verið á lánsbifreið hafi þeir orðið svo skelkaðir og hræddir að þeir hafi ekki vitað sitt rjúkandi ráð og því flúið af vettvangi og hírst í skógarkjarri þar skammt frá þar til kuldinn var þeim óbærilegur og þeir hafi því komið sér aftur niður á veg.  Þess má geta að lofthiti á þessum slóðum var um 4 gráður og svalt í veðri. Málið telst því upplýst og eigandi bifreiðarinnar búinn að fá hana í hendur aftur en í heldur verra ásigkomulagi en hún var þegar hún var lánuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×