Erlent

Hamas þakka sér brottflutning

Einhver þekktasti hryðjuverkamaður Hamas-samtakanna birtist sigri hrósandi á myndbandsupptöku sem send var fjölmiðlum í gærkvöldi. Þar segir hann brotthvarf Ísraelsmanna frá Gaza afleiðingu vopnaðrar baráttu hundraða skæruliða sem hefðu fórnað sér fyrir málstaðinn. Mohammed Deif er efstur á lista Ísraelskra stjórnvalda yfir eftirlýsta hryðjuverkamenn og er sagður bera ábyrgð á dauða tuga ísraelskra borgara. Tvisvar hefur verið reynt að ráða hann af dögum og frá því 1992 hefur hann farið huldu höfði. Myndbandsupptakan nú á að sýna styrk og þrautsegju Hamas auk þess sem sigri er hrósað yfir Ísrael vegna brotthvarfsins frá Gaza. Deif sagðist vera með þau skilaboð til Palestínskra yfirvalda, að brottflutningar Gyðinga af Gaza ströndinni hafi verið mikilvæg lexía fyrir alla. Gaza ströndin væri jú hluti af ríki þeirra og sé nú komið í réttar hendur og það megi þakka Guði og einnig árásum palestínskra hermanna. Hann sagði að því ættu palestínsk yfirvöld alls ekki að taka vopnin af uppreisnarmönnum því þeir ættu sinn þátt í því að Gaza ströndin er komin í réttar hendur. Hann sagði einnig að nauðsynlegt væri að ræða málin til þess að koma í veg fyrir að meira blóði verði úthellt. Ísraelsk stjórnvöld brugðust ókvæða við upptökunni og sögðu að áróður Deifs gæti spillt fyrir friðarviðræðum stjórnvalda. Það væri nú Palestínumanna að stíga næsta skref, nokkuð sem Bush Bandaríkjaforseti tók undir síðdegis en þrýsti þó ekki á palestínsk yfirvöld að afvopna Hamas og sveitir annarra öfgasamtaka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×