Erlent

Katarina safnar kröftum

Fellibylurinn Katrina safnar nú kröftum yfir Mexíkóflóanum og býr sig undir aðra yfirreið yfir suðurströnd Bandaríkjanna. Katrína tók land við Fort Laudardale á Flórída á fimmtudagskvöld og fór sér hægt yfir Flórídaskagann með töluverðri eyðileggingu. Heilu hverfin voru á floti og náði vatnið fólki í læri. Þúsundir trjáa fuku upp með rótum og nærri þrjár milljónir voru án rafmagns. Sjö fórust. Þetta er þó að líkindum ekkert miðað við þær skemmdir sem nú er óttast að Katrína geti valdið, en hún er nú yfir heitum sjó á Mexíkóflóa og vex þar mjög ásmeginn. Veðurfræðingar segja líklegt að hún breytist í fellibyl af stærðargráði fjögur fyrir sunnudagskvöld og stefni í norðurátt. Fellibylur af þessari stærð hefur í för með sér vindhraða allt að sjötíu metrum á sekúndu og flóðbylgjur upp á fjóra til fimm metra. Katrína gæti barið á Flórídabúum á ný eða tekið stefnuna á New Orleans. Líklegt er að fjöldi olíuborpalla verði á leið hennar. Neyðarástandi hefur þegar verið lýst á þessu svæði, þar sem íbúar eru enn að jafna sig eftir fellibylinn Dennis sem gekk yfir fyrr í sumar og Ívan sem olli miklum skemmdum fyrir tæpu ári. Katrína er fimmti fellibylurinn sem gengur yfir Flórída á þessu ári og ellefti öflugi stormurinn það sem af er fellibyljatímanum, sem stendur enn í þrjá mánuði til viðbótar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×