Erlent

Fuglaflensa í Finnlandi

Finnsk yfirvöld segja að hugsanlega hafi greinst fuglaflensa í mávum þar í landi. Mávarnir voru veikir eða dauðir við tjörn í bænum Oulu í Norður-Finnlandi þar sem yfirvöld hafa fylgst með fuglum um hríð. Landbúnaðarráðherra Finnlands segir að enn sem komið er sé ekki hægt að staðfesta smitið þar sem lokaniðurstöður rannsókna liggja ekki fyrir fyrr en eftir þrjár vikur. Frumniðurstöður benda hins vegar til þess að mávarnir séu með fuglaflensu, en þó ekki bráðsmitandi stofn eins og þá sem hafa leikið Asíu grátt. Reynist fuglaflensa á kreiki í Finnlandi hefur flensan borist mun vestar en vísbendingar hafa áður verið um. Síðast í gær lýstu sérfræðingar Evrópusambandsins þeirri skoðun sinni að litlar líkur væru á að flensan yrði bein ógn í Evrópu og ekki væri þörf á aðgerðum í bili. Þetta hefur þó verið gagnrýnt, ekki síst í ljósi þess að farfuglar eru einir helstu berar flensunnar. Hér á landi er verið að skoða þessi mál, að sögn Jarle Reiersen, yfirlæknis alifugla hjá yfirdýralækni. Hann sagði upplýsinga um viðbrögð hér á landi að vænta á næstu dögum. Hann vonaðist til þess að fuglaflensa bærist ekki hingað til lands og lega landsins væri vissulega hagstæð, en farfuglar kæmu hingað til lands í miklu magni. Því væri ekki hægt að útiloka neitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×