Innlent

Misbrestur á orlofsgreiðslum

Verslunarmannafélag Reykjavíkur brýnir fyrir starfsfólki að fara vel yfir launaseðla sína, því dæmi eru um að sumarstarfsfólk verði af orlofslaunum á haustin. Í flestum tilfellum er um gleymsku vinnuveitenda að ræða. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur hvetur sumarstarfsfólk til að skoða síðasta launaseðilinn sinn vel og vandlega til að vera viss um að orlof sé greitt. Hafsteinn Hannesson kjaramálasérfræðingur hjá VR segir að um töluverðar fjárhæðir geti verið að ræða og að þeir sem helst lenda í þessu séu skólafólk sem ræður sig í vinnu á vorin og starfar til loka ágúst. Þá er mikilvægt að fram fari fullnaðaruppgjör gagnvart þeim frá vinnuveitendum. Þarna er það orlofið sem skiptir máli og orlofið er rúmlega 10% af heildarlaunum fólks og því geta þetta verið umtalsverðar upphæðir. Einnig er mikilvægt að hafa í huga hversu lengi sumarvinnan stóð yfir, því ef starfsmaður náði 12 vikna samfelldum starfstíma á hann rétt á uppgjöri vegna orlofs- og desemberuppbótar. Hafsteinn segir þó að í flestum tilfellum sé um mistök að ræða af hálfu vinnuveitanda þegar gleymist að borga orlof í lok sumars. Hann sagði fyrsta skref launþegans að gera athugasemdir við vinnuveitanda því að oft er um mistök að ræða eða gleymst hefur að koma skilaboðum til launadeildar. Ef það gengur ekki eftir þá þarf fólk að leita til síns stéttarfélags og fá aðstoð við innheimtu á greiðslunum. Hann sagði að töluvert væri um fyrirspurnir og oftast gengi launþegum vel að innheimta en þó væru alltaf nokkur mál sem þarf að fara með lengra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×