Erlent

Mið-Evrópa á floti

Enn er allt á floti víða í Mið-Evrópu þó að rigningin sé að mestu hætt. Á fimmta tug hefur týnt lífi í flóðunum og í Sviss er óttast að fjöldi gamalla bygginga hrynji vegna vatnsflaumsins. Íbúar elstu hverfanna í Bern í Sviss fá ekki að fara heim til sín þar sem óttast er að vatnflaumurinn brjóti gömul húsin í spón. Enn rignir í Sviss og er spáð ringingu um helgina en þó mun minni en undanfarið. Kristín Heimisdóttir, íbúi í Bern, segir mikla drullu í hverfinu þar sem allt fór á flot en ekki væru nein flóð lengur sem hægt er að tala um. Hún sagði ástandið í Ölpunum vera talsvert verra þar sem eru aurskriður eða hætta á þeim. Fólk hefur yfirgefið heimili sín og er að snúa aftur heim núna. Hún sagði að hættan á því að hús hrynji væri meiri í Ölpunum þar sem mikið er af gömlum húsum. Hún sagði einnig árfarvegi hafa breytt sér og að það væri mjög slæmt þar sem árnar hafa stíflast. Því verða vötnin full af drasli og timbri og öllu mögulegu og hún sagði það skapa hættuástand. Hún sagði jafnframt að vatnsmagnið sjálft hefði ekki komið á óvart heldur stíflurnar í ánum.   Flóðin hafa valdið tjóni upp á marga tugi milljarða króna í Ungverjalandi, Rúmeníu, Sviss, Þýskalandi, Frakklandi og Austurríki. Hundruð heimila eru ónýt, vegir og lestarteinar sópuðust í burtu og talið er víst að dágóður tími líði þar til tekst að koma öllu í samt lag á ný.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×