Erlent

Fjölgun Gyðinga á Vesturbakkanum

Gyðingum sem búa í landnemabyggðum á Vesturbakkanum hefur fjölgað meira en sem nemur þeim fjölda landnema sem fluttir hafa verið frá hernumdum svæðum. Tæplega níu þúsund landnemar voru fluttir frá Gasa-ströndinni og fjórum byggðum á Vesturbakkanum í tengslum við brotthvarf Ísraelsmanna þaðan, en mun fleiri landnemar hafa komið sér fyrir á Vesturbakkanum á sama tíma, nærri þrettán þúsund. Alls búa því tvöhundruð fjörutíu og sex gyðingar í hundrað og sextán landnemabyggðum á meðal Palestínumannanna á Vesturbakkanum. Flestir eru landnemarnir harðlínu-rétttrúaðarsinnar. Fyrirskipun hefur verið gefin um að ryðja land á Vesturbakkanum til að framlengja þar hinn umdeilda öryggismúr svo að hann nái utan um þær landnemabyggðir sem Ísraelsmenn vilja halda, einkum þá stærstu, Maale Adumim. Múr um hana gerir Ísraelsmönnum einnig auðveldara að loka af austurhluta Jerúsalem. Alþjóðadómstóllinn hefur úrskurðað að bæði múrinn og landtakan séu ólögleg samkvæmt alþjóðalögum. Palestínumenn líta á þessi áform ísraelskra stjórnvalda sem skref í þá átt að hernema enn meira land á Vesturbakkanum og herða tökin á þeim svæðum sem þegar hafa verið hernumin. Vesturbakkinn verði með þessu klofinn í tvennt og komið í veg fyrir að Palestínumenn geti þar stofnað sjálfstætt ríki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×