Innlent

Vill helst komast til Íslands

Yfirvöld í Texas-ríki í Bandaríkjunum hafa gefið Aroni Pálma Ágústssyni, sem hefur verið í stofufangelsi síðustu ár, heimild til skólagöngu. Ríkisstjóraembættið í Texas hefur enn ekki svarað beiðnum stuðningsmannahóps Arons um heimfararleyfi til Íslands, en sex vikur eru frá því að svörum var lofað. Aron Pálmi fékk fyrir helgi margumbeðna heimild til að stunda nám við háskóla í Texas. Þegar hann var 11 ára framdi hann kynferðisbrot gegn yngri dreng og var dæmdur til tíu ára fangelsisvistar af dómsvöldum í Texas. Hann afplánaði sjö ár í rammgerðu fangelsi en var svo færður í stofufangelsi fyrir tveimur og hálfu ári og má ekki fara út fyrir hússins dyr nema hafa staðsetningartæki bundið um ökklann. Aron Pálmi lauk fyrir löngu inntökuprófi í háskóla og hefur margsinnis sótt um leyfi til skólagöngu, en jafnan verið synjað. Fyrr í sumar var honum neitað um að stunda heilsurækt, þar sem í því gæti falist skemmtun. Nú fær Aron hins vegar að dvelja í skólanum frá því snemma á morgnana, fram á kvöld. Einnig hefur hann aðgang að sundlaug og tækjasal skólans, en staðsetningartækið þarf hann enn að bera. Í tölvupósti til Einars S. Einarssonar, sem er í stuðningsmannahópi Arons Pálma á Íslandi, segir Aron Pálmi að hann sé glaður yfir skólavistinni, en samt óski hann þess heitast að hann fái að komast aftur til Íslands. Á morgun eru sex vikur liðnar frá því að svörum var heitið frá Ríkistjóraembættinu í Texas við ítrekuðum beiðnum stuðningsmanna Arons Pálma um heimfararleyfi til Íslands. Einar segir að ákvörðun ríkisstjórans ætti því að vera væntanleg fljótlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×