Innlent

Hagyrðingar eru skrítið fólk

Hagyrðingar landsins bíða þess nú að laugardagurinn 3. september renni upp en þá halda þeir árlegt landsmót sitt. "Undirbúningur gengur vel en það getur verið erfitt að ná hagyrðingum saman því sum okkar eru jú stórskrítin," segir Sigrún Haraldsdóttir hagyrðingur sem stendur í undirbúningi ásamt fleirum. Þetta er í sautjánda sinn sem Landsmót hagyrðinga er haldið en fyrst var það á Skagaströnd árið 1989. Þátttakendur eru jafnan á bilinu 100 til 200 en metfjöldi var á mótinu 1995 sem haldið var í Reykjavík, það sóttu á milli 300 og 400 manns. Hefð er komin á mótshaldið og verða stefin kunnugleg þeim er til þekkja; Matur, mjöður, ávarp heiðursgests, kveðskapur og kvæðamennska og dans að lokum. Ógjörningur er að toga upp úr Sigrúnu hver heiðursgestur kvöldsins verður enda ekki frágengið að fullu. Fréttablaðið hefur þó vonir um að geta skýrt frá því síðar í vikunni. Sigrún hvetur hagyrðinga nær og fjær til þess að sækja mótið og leggur til að fólk taki sig saman og komi til samkomunnar á langferðabifreiðum. "Það skapast alltaf svo skemmtileg stemning í rútum og oft verða til góðar vísur," segir hún til útskýringar. Fólk er vitaskuld hvatt til að láta ljós sitt skína á Landsmótinu en réttast væri af viðkvæmum að láta það ógert. "Menn verða nefnilega að una því að sitja undir gagnrýni, ef illa er kveðið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×