Innlent

Norski verkamannaflokkurinn í sókn

Stjórnarskipti eru líkleg eftir þingkosningar sem fara fram í Noregi eftir mánuð, samkvæmt könnunum. Núverandi forsætisráðherra verður ekki í framboði en vonast samt til að verða áfram í embætti. Stuðningur við norska Verkamannaflokkinn hefur stóraukist undanfarið og er nú meiri en undanfarin fimm ár. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar sem bendir til þess að Verkamannaflokkurinn gæti borið sigur út bítum í þingkosningum þann tólfta september næstkomandi. Flokkurinn myndi ásamt tveimur smáflokkum sem þykja líklegir til að mynda saman stjórn, fá níutíu og sex sæti af hundrað sextíu og níu samkvæmt könnuninni. Stjórnarflokkarnir fengju hins vegar aðeins sjötíu og eitt sæti. Jens Stoltenberg, formaður Verkamannaflokksins, hefur gagnrýnt Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra, harðlega, fyrir að fara illa með olíuauð Noregs og nota hann til að færa þeim efnameiri skattalækkanir í stað þess að gera nauðsynlegar umbætur í menntamálum, atvinnumálum og umönnun eldri borgara. Það eru þeir málaflokkar sem kjósendur leggja mesta áherslu á, samkvæmt könnunum. Persónufylgi Stoltenbergs er einnig mest: þrjátíu og átta prósent aðspurðra eru á því að hann yrði besti forsætisráðherrann að kosningum loknum. Kjell Magne Bondevik stefnir þrátt fyrir þetta ótrauður að því að sitja áfram sem forsætisráðherra að loknum kosningum, þó að hann verði ekki í framboði. Bondevik hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram í næstu kosningum en fordæmi eru fyrir því í norskri stjórnmálasögu að forsætisráðherra sé ekki þingmaður og Bondevik gerir sér vonir um að fylgja þeirri hefð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×