Innlent

Ástarvikan hafin í Bolungarvík

Ástarvikan hófst í Bolungarvík í dag. Megintilgangurinn er að fjölga Bolvíkingum og það er að mörgu að huga. Bolvíkingar hvetja nú hvern annan til að borða egg og sjávarfang, náttúruleg frjósemislyf. Ástarvikan hófst á því að hjartalaga blöðrum var sleppt í hundraðatali í Bolungarvík og boðið var upp á hjartalaga sleikipinna. Bolvíkingar fylktu síðan liði til að heimsækja ástarvikubarnið 2005, en þetta er í annað sinn sem þessi einstaka frjósemisvika er haldin. Foreldrarnir eru ánægðir með afraksturinn, en barnið fæddist níu mánuðum eftir síðustu ástarviku og var eina ástarvikubarnið. Reimar Vilmundarson ástarvikupabbi segir aðspurður hvort leggja eigi í annað ástarvikubarn að það sé aldrei að vita en hann skori á aðra Bolvíkinga að taka þátt líka. Það þýði ekki að standa í þessu einn. Aðspurður hvort mataræðið skipti máli segir Reimar að menn verði að borða eggin úr bjarginu á vorin og það dugi fram á haustið. Einar Pétursson, bæjarstjóri Bolungarvíkur, segir ástarvikuna fyrst og fremst snúast um það að fólk komi saman og hafi gaman en tilgangurinn hafi verið að fjölga íbúum í Bolungarvík. Aðspurður um afraksturinn eftir ástarvikuna í fyrra segir Einar að það hafi aðeins verið eitt barn sem hafi verið hægt að sanna upp á ástarvikuna en vonast sé eftir betri árangri næst. Spurður um hversu hátt markið verði sett nú segir Einar að 10 börn væri mjög gott en hann hafi trú á því að það fæðist tvíburar næst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×